143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

störf þingsins.

[14:20]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar undir liðnum um störf þingsins að fjalla aðeins um störf þingsins, aldrei þessu vant, og kvöldfundinn sem var í gær.

Á síðustu vikum hafa verið mjög fá þingmál á dagskrá frá stjórnvöldum og mál þingmanna að miklu leyti komin úr nefndum. Í síðustu og þarsíðustu viku var hér hver sérstaka umræðan á fætur annarri og virtist manni sem menn ættu fullt í fangi með að fylla dagskrána. Í næstu viku verða engir þingfundir, heldur nefndafundir. Ef það koma það mörg mál inn í þingið núna að við þurfum að halda þingfundi á kvöldin fram að miðnætti og það í febrúar velti ég fyrir mér hvort ekki þurfi að endurskoða eitthvað þessa nefndaviku. Af hverju var verið að setja inn aukanefndadaga um daginn? Í dag eru 17 mál á dagskrá eftir umræðuna um ESB-skýrsluna og þingsályktunartillögu hæstv. utanríkisráðherra. Hvar voru þau mál í síðustu viku?

Ástæðan fyrir því að ég er ekki alveg tilbúin að láta þetta mál niður falla og kem hér ítrekað upp og fjasa um það í ræðustól er að mér finnst mjög mikilvægt að fagleg vinnubrögð sé stunduð á Alþingi. Ef forseti heimilar kvöldfundi finnst mér hann í raun vera að samþykkja þau slæmu vinnubrögð meiri hlutans að henda fram málum allt of seint og allt að því þegar þeim sýnist. Hæstv. forseti hefur einmitt ítrekað mikilvægi þess að stjórnvöld leggi fram mál í tíma.

Mig langar að gera athugasemdir við að virðulegur forseti hafi farið fram á afbrigði. Það er skellt á kvöldfundi í andstöðu við minni hlutann án þess að rökstyðja þá ákvörðun. Ég velti fyrir mér hver ræður dagskrá þingsins. Er það meiri hlutinn? Er það framkvæmdavaldið? Er það einstaka ráðherra? Hver fór fram á að kvöldfundur væri haldinn í gær? Hvað gerði þetta mál svona aðkallandi?

Það má líka spyrja hvort ekki sé eðlileg krafa að þingmenn sem samþykkja afbrigði í andstöðu við félaga sína á þingi sitji þá undir þeim umræðum í þingsal á meðan það mál (Forseti hringir.) sem þeir vildu sérstaklega (Forseti hringir.) setja á dagskrá er rætt.