143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

störf þingsins.

[14:39]
Horfa

Sigrún Magnúsdóttir (F):

Herra forseti. Ég þakka fyrirspurn hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur, en e.t.v. er hún samt óþörf núna vegna þess eins og hv. þingmaður gat um er tillagan á dagskrá þessa fundar.

Í tæp 20 ár höfum við verið með þennan valkost til umræðu hjá Reykjavíkurborg. (VBj: Svaraðu spurningunni.) Þegar við sameinuðum Kjalarnes Reykjavíkurborg (VBj: Ég var að spyrja um forgangsröðunina.) þá gáfum við, Reykjavíkurlistinn sem ég var hluti af, það loforð að Sundabraut yrði sett í forgang og að yrði byggt við skólann. Við hófumst strax handa við að byggja við skólann og það er búið. Sundabraut er eftir. Sundabraut er mikið öryggisatriði fyrir alla borgarbúa. Mikið öryggisatriði. Hvað gerist ef hér verður náttúruvá? Hvernig komum við fólki út úr borginni? (VBj: Ég var að spyrja um forgangsröðunina.) Sundabraut er framarlega í forgangsröðuninni og það er mjög mikilvægt fyrir okkur að hún verði það. (VBj: Mikilvægari en sjúkrahúsin?) Maður á ekki alltaf að bera saman epli og appelsínur, ágæti þingmaður.

Ég segi það að við þurfum á Sundabraut að halda. Hún styttir vegalengdir. Hún (Gripið fram í.) styður við öryggi. (Gripið fram í.) Ég segi bara: Ég held að við þyrftum næstum því tvö sjúkrahús ef við kæmum ekki Sundabraut á laggirnar ef hér mundi eitthvað válegt gerast vestan Elliðaánna.

Heilbrigði þjóðarinnar er vitaskuld í fyrsta sæti. Í það eigum við auðvitað að setja fjármagn, um það erum við öll sammála. En samgöngur eru mjög mikilvægar. Ég vil benda á erindi Gests Ólafssonar í morgun.