143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

umræður um dagskrármál fundarins.

[14:48]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég tók eftir því að fyrr í dag kvað forseti upp úrskurð eftir að hafa borist bréf formanns Samfylkingarinnar í tilefni af þeirri stjórnartillögu sem hér er á dagskrá þar sem bornar voru brigður á að tillagan standist stjórnarskrá og lög, og þess var krafist að málið yrði ekki tekið á dagskrá af þeim ástæðum. Kveðinn hefur verið upp úrskurður um málið. Engu að síður virðist umræðan ætla að halda áfram undir dagskrárliðnum um fundarstjórn forseta. Ég heyri ekki annað en verið sé að ræða um greinargerðina með tillögunni og kalla eftir því að utanríkisráðherra komi með gögn eða skýri mál sitt eitthvað frekar. Hann ber auðvitað ábyrgð á tillögunni og greinargerðinni sem slíkri.

Þar sem úrskurður forseta liggur fyrir um að málið sé þingtækt sé ég ekki hvaða (Forseti hringir.) tilefni er til þess (Forseti hringir.) að eyða löngum ræðum í það hér um fundarstjórn forseta (Forseti hringir.) að greinargerðin (Forseti hringir.) sé með þessum hætti eða hinum, það hlýtur að bíða umræðunnar þegar hún kemst á dagskrá.