143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

umræður um dagskrármál fundarins.

[14:51]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir þá hreinskilni sem kemur fram hér í ræðustól þar sem hann vísar frá sér ábyrgð á tillögunni og þeirri svívirðilegu greinargerð sem henni fylgir yfir á utanríkisráðherra hæstv. sem ber ábyrgð á henni. Mér finnst það virðingarvert af hæstv. fjármálaráðherra að segja okkur hreint út hvernig í pottinn er búið. Mér finnst það virðingarvert. Ég tek undir það, virðulegi forseti, sem ég hef áður gert á fundi forsætisnefndar, að farið sé yfir þetta. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur hér fært fram rök fyrir þessu máli. Ég held að utanríkisráðherra gæti aðeins stækkað sig með því að hlusta á þau rök og breyta greinargerðinni.

Virðulegi forseti. Ég tek líka undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, sem er einn af varaforsetum sem sitja í forsætisnefnd, að strax að sérstakri umræðu lokinni sem verður hér á eftir verði gert fundarhlé og boðaður fundur í forsætisnefnd. (Forseti hringir.) Það er ekki nægilegt, virðulegi forseti, að gera það í kvöldmatarhléi.