143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

umræður um dagskrármál fundarins.

[15:01]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Maður skyldi ætla að þegar þetta mál fór í gegnum þingflokka stjórnarflokkanna, það mál sem hér er til umræðu, í ljósi þess að í greinargerð er verið að brjóta blað í því hvernig stjórnartillögum er beint gegn sitjandi þingmönnum og fyrrverandi þingmönnum, hafi sá þáttur greinargerðarinnar hlotið sérstaka athygli á fundum stjórnarflokkanna. Maður skyldi ætla að það væri ekki þannig að það skutlaðist sisona fram hjá stjórnarþingmönnum þegar um slíka stefnubreytingu er að ræða og nýtt tímabil er opnað í því hvernig þykir sæma að tala til þingsins.

Ég vil segja við virðulegan forseta: Það er full ástæða til að taka stöðuna sem nú er komin upp mjög alvarlega. Þegar tveir varaforsetar þingsins hafa óskað eftir fundi núna um stöðuna tel ég óásættanlegt annað en kallað verði til slíks fundar (Forseti hringir.) svo fljótt sem auðið er.