143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

umræður um dagskrármál fundarins.

[15:13]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Í 45. gr. þingskapa segir svo um þingsályktunartillögur:

„Tillögur til þingsályktunar skulu vera í ályktunarformi. Skal prenta þær og útbýta þeim meðal þingmanna á þingfundi. Tillögu til þingsályktunar skal að jafnaði fylgja greinargerð með skýringu á efni hennar.“

Rógburður um afstöðu þingmanna og atkvæðagreiðslur á síðasta kjörtímabili á ekkert skylt við efni þessarar tillögu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Ef hæstv. utanríkisráðherra væri ekki með þennan sóðaskap á prenti í prentuðu þingskjali heldur segði þetta sama úr ræðustól á Alþingi (Gripið fram í: Þá bæri að víta …) kæmi til sögunnar 93. gr. þingskapa og er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Ef þingmaður talar óvirðulega um forseta Íslands eða ber þingið eða ráðherra eða einhvern þingmann brigslyrðum eða víkur með öllu frá umtalsefninu skal forseti kalla til hans: „Þetta er vítavert“ …“

Ég tel að það sé hafið yfir vafa að ef ekki væri hér um prentað þingskjal að ræða heldur ummæli hæstv. utanríkisráðherra bæri forseta að víta hann. (Forseti hringir.) (Gripið fram í: Lestu það upp.) Það segir sína sögu um það hversu ótækt það er að bjóða upp á að þessi (Forseti hringir.) tillaga með óbreyttri greinargerð verði hér áfram á dagskrá. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)