143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

umræður um dagskrármál fundarins.

[15:16]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Forseti. Þetta eru að verða í raun alveg óskiljanleg tíðindi af því sem hér er að gerast. Hér ræða menn greinargerð með þessari þingsályktunartillögu fram og til baka, bjóða upp á margvísleg tækifæri til að lagfæra það þannig að menn séu ekki bornir brigslyrðum í þingsal, en það er enginn sem kemur hingað og bregst við því með einhverjum hætti eða býðst til að taka málið að sér. Eða þá bara að útskýra fyrir okkur hinum hvers vegna þetta er nauðsynlegt. Hvaða þrýstingur liggur að baki því að þessi setning er höfð í greinargerð með málinu? Hverjum er það svona sérstakt kappsmál að setja þá niður með þessum hætti sem báru ábyrgð á tillögunni á sínum tíma? Eru menn í einhverjum hefndarleiðangri hérna í þingsalnum? Er það erindi hæstv. utanríkisráðherra í þessa umræðu að hefna sín fyrir það að hafa verið í minni hluta á síðasta kjörtímabili? Eru það svo annarlegar hvatir sem liggja að baki þessu að menn (Forseti hringir.) geta ekki leiðrétt greinargerðina með þessum gríðarlegu brigslyrðum á eigin félaga í stjórnarmeirihluta? (Forseti hringir.)