143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

málefni Seðlabankans.

[15:26]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Ég þakka fyrir tækifærið til að bregðast við þeim spurningum sem hv. þingmaður ber hér upp og eru, eins og ég skil það, fram komnar í framhaldi af þeirri ákvörðun minni að auglýsa stöðu seðlabankastjóra í lok skipunartíma hans. Um leið var tilkynnt um að sett yrði af stað vinna við að meta árangurinn og reynsluna af síðustu breytingum á lögum um bankann og taka jafnframt önnur atriði með til skoðunar.

Fyrst varðandi það hvaða tilefni sé til þess að endurskoða lögin. Frá þessu hef ég reyndar greint í sérstakri fréttatilkynningu og í fjölmiðlum en það er sjálfsagt að fara stuttlega yfir það.

Í fyrsta lagi voru gerðar miklar breytingar, eins og hv. þingmaður rakti, á stjórn bankans og nýju fyrirkomulagi komið á fyrir peningastefnunefnd bankans vorið 2009 án þess að að því væri eðlilegur aðdragandi, að mínu mati. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að þegar ákvörðun minni um að í lok skipunartíma skuli staða auglýst, og ég færi fyrir því þau rök að það séu ýmis atriði sem ástæða sé til að skoða í seðlabankalögunum, er líkt við einhvers konar árás á sjálfstæði Seðlabankans finnst mér býsna langt seilst. Það er sjálfsagt að lýsa því hér yfir að í þessum ákvörðunum felst ekkert vantraust á yfirstjórn bankans eða starfsemi hans. Það var hins vegar gríðarleg vantraustsyfirlýsing sem birtist í aðgerðum ríkisstjórnarinnar vorið 2009 þegar forsætisráðherra hringdi í seðlabankastjóra og bað þá að víkja úr sætum sínum. Þegar ekki var orðið við því var komið með frumvarp í þingið og það samþykkt, gerðar breytingar á yfirstjórn bankans, að því er virtist beinlínis í þeim tilgangi að koma mönnum þar út, þar sem hæfniskröfur voru til dæmis teknar upp sem ljóst var að sumir seðlabankastjórar uppfylltu ekki. (SSv: Hvaða sumir?) Ég heyri að þingmenn stjórnarandstöðunnar geta ekki varist hlátri en hafi menn áhyggjur af því hvernig svona aðgerðir blasa við umheiminum get ég sagt fyrir mitt leyti að ég held að ekki hafi verið hægt að koma með skýrari árás á sjálfstæði bankans en þar var gert.

Ég vek athygli á því að þetta var í fyrsta skipti sem staðið var að jafn veigamiklum breytingum og þeim sem í hlut áttu án alls samráðs, enda færðu vísir menn á borð við fyrrverandi seðlabankastjóra, Jóhannes Nordal, fram athugasemdir í þinglegri meðferð málsins og sögðu: Hvað liggur á? Er ekki rétt að vanda sig? Hvers vegna vildi þingnefndin ekki leita eftir sjónarmiðum Evrópska seðlabankans svo dæmi sé tekið? Slíku var neitað í þinglegri meðferð málsins.

Ég þarf að koma aftur að tilefninu. Það er í fyrsta lagi að nú höfum við fengið fimm ára reynslu af breytingunum. Við skulum meta hana. Spurt er hvort seðlabankastjórum verði fjölgað og hvort ekki væri réttara að bæta jafnvel við öðrum varaseðlabankastjóra. Það eru einmitt svona spurningar sem verða teknar til athugunar í ljósi reynslunnar og það stendur ekki til að fórna því markmiði að menn verði ráðnir á grundvelli hæfileika sinna til að stýra æðstu embættum í Seðlabankanum. Það stendur heldur ekki til að gera nokkuð það sem hægt verður að túlka sem árás á sjálfstæði bankans, þvert á móti, m.a. í ljósi aukinna verkefna Seðlabankans á undanförnum árum. Hann hefur nú með höndum mun umfangsmeiri verkefni en lengi hefur gilt og nægir þar að vísa í gjaldeyrishöftin, gjaldeyriseftirlit og tengd mál, tryggja að hann hafi það skipulag, þau tæki og tól sem hann þarf á að halda til að geta gegnt því hlutverki sínu sem og verðstöðugleikahlutverkinu. Orðið hafa breytingar á hlutverki og starfsemi bankans frá falli bankanna og það er gríðarlega mikilvægt að bankinn hafi öll tæki til þess að uppfylla þessi meginmarkmið sín.

Ég tek að lokum fram varðandi fyrirkomulag vinnunnar fram undan að leitast verður eftir þverpólitísku samráði við þingið. Við munum líka leitast eftir samráði við aðila vinnumarkaðarins þannig að þeir komi sínum sjónarmiðum að. Ég get ekki fullyrt hvort það er raunhæft á þessu þingi að taka inn frumvarp um þessi atriði en frumvarpið sem ég hafði látið á þingmálaskrána sneri (Forseti hringir.) ekki beint að stjórn bankans heldur frekar að fjárhagslegum samskiptum Seðlabankans og ríkissjóðs sem hafa verið í skoðun milli aðilanna í vetur.