143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

málefni Seðlabankans.

[15:32]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Trúverðug umgjörð utan um starfsemi Seðlabanka Íslands og sjálfstæði hans er mikilvæg forsenda efnahagslegs stöðugleika í landinu og lánskjara landsins út á við. Þess vegna er varhugavert þegar menn ráðast í breytingar eins og ríkisstjórnin gerði á föstudaginn, nokkrum dögum eftir að forsætisráðherra atyrti Seðlabankann. Þó að hæstv. forsætisráðherra hafi afneitað samhenginu og hæstv. fjármálaráðherra afneiti því skilja erlendir aðilar það og ég hef rakið úr ræðustól Alþingis dæmi um það að í erlendum fréttamiðlum hafi verið fyrirsögnin „Laust starf: Meðfærilegur seðlabankastjóri óskast“.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur ekki skýrt hvaða breytingar þarf að gera á stjórnkerfi Seðlabankans sem kalla á þessa aðferðafræði. Ummæli hans hér áðan benda til þess að fremur ráði einhvers konar hefndargjörð vegna þess að hann var fyrst og fremst að tala um hvað var gert árið 2009 en ekki hvaða úrbætur væri þörf á að gera nú. Og hann játaði að frumvarpið sem ætti að koma fyrir þingið á næstu mánuðum hefði að hans áætlun átt að snúast um fjárhagsleg samskipti Seðlabanka og ríkissjóðs. Ekki stjórnkerfið. Hér er verið að nota það að hæstv. fjármálaráðherra ætlaði að setja fram annars konar frumvarp til að breyta stjórnkerfi Seðlabankans.

Við skulum fara yfir hvað var gert árið 2009. Þær breytingar voru í fullri samvinnu og sátt við sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins vegna þess að ekki var hægt að ná samvinnu milli Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á þessum tíma. Við skulum bara tala hreint út um hlutina eins og þeir voru. Það var nauðsynlegt að setja menntunarkröfur þó að þær hafi bitnað á pólitískum sendisveinum sem sátu í stjórn Seðlabankans. Það var óhjákvæmilegt að setja á fót óháða valnefnd og hún skilaði þeim ágæta árangri að í henni sátu vorið 2009 í meiri hluta færustu hagfræðingar landsins sem líka vildi svo skemmtilega til að höfðu báðir gegnt (Forseti hringir.) trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn og völdu þann sem þeir töldu hæfastan. Pólitíkinni var þannig úthýst (Forseti hringir.) og það var ekki lengur þannig að stjórnarmeirihluti veldi sinn fulltrúa í bankastjórastól. Það voru tímamótin. Ég óttast af svörum hæstv. ráðherra að hann vilji snúa til baka (Forseti hringir.) frá því heillaspori.