143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

málefni Seðlabankans.

[15:40]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að rengja orð hæstv. fjármálaráðherra heldur treysti því bara að hér verði leitast við að hafa pólitískt samráð og allt gert til að auka traust Seðlabankans. Að sama skapi get ég ekki annað en haft smááhyggjur vegna blessaðrar fortíðarinnar. Lengi hefur loðað við Seðlabankann að vera með pólitískt skipaða stjórn, þ.e. fram að seinustu breytingu.

Nú veit ég ekki hvort við hæfi sé að tala sérstaklega um menn sem ekki eru hér staddir en það liggur fyrir að á einhverjum tímapunkti þótti það góð hugmynd árið 2005 að gera að seðlabankastjóra mann sem var umdeildasti og áhrifamesti stjórnmálamaður landsins. Það er sagan, það hversu blind við höfum verið á hvað það þýðir að hafa trúverðugan seðlabanka. Það er algjörlega að manninum ólöstuðum. Það getur vel verið að hann hafi verið besti seðlabankastjóri í heiminum, bara áhrifamesti og umdeildasti stjórnmálamaður landsins á síðari tímum, vel hugsanlega alla tíð síðan á Sturlungaöld. Það má að minnsta kosti ýja að því.

Ekki nóg með það, heldur var nýlega viðtal við hæstv. forsætisráðherra sem líka vekur áhyggjur. Það er ýjað að því að einhverjar pólitískar ástæður séu að baki sem er eðlileg spurning með hliðsjón af fortíðinni og þá bregst hæstv. forsætisráðherra svo illa við og spyr: Var ekki sá seinasti líka pólitískt skipaður? Það er engin afsökun, það er alltaf þessi sama fjárans afsökun: Var þetta ekki jafn slæmt í seinustu ríkisstjórn og þar á undan?

Nei, kannski. Já, það skiptir ekki máli. (Gripið fram í: Nei.) Trúverðugleiki Seðlabankans skiptir höfuðmáli. Það er ekki nóg að hafa lög og stefnur, við þurfum að passa okkur.

Að því sögðu ætla ég að ítreka það sem ég opnaði með: Ég ætla ekki að rengja hæstv. fjármálaráðherra heldur vona bara að þetta gangi allt sem best.