143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

málefni Seðlabankans.

[15:42]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ummæli hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra um samjöfnuð við breytingarnar 2009 eru auðvitað með ólíkindum, að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra skuli leggja slíkt ástand og þá var að jöfnu við það sem nú er uppi. Ummæli hans um að breytingarnar á stjórnskipulagi Seðlabankans 2009 hafi veri árás á sjálfstæði hans eru hrein öfugmæli vegna þess að sjálfstæði Seðlabankans var aukið og fingraför stjórnvalda fjarlægð af því að geta troðið þar einhverjum pólitískum fulltrúum sínum inn án tillits til dæmis til menntunar eða hæfniskrafna. Bara akkúrat öfugt.

Þessi samskipti valda áhyggjum, þ.e. samskipti ríkisstjórnar og Seðlabankans. Það er ekki bara um eitthvert einstakt upphlaup að ræða hér. Ég hef vaktað þetta nokkuð grannt. Hæstv. forsætisráðherra hefur ítrekað hjólað í Seðlabankann — einfaldlega hjólað í Seðlabankann. Þegar ákvörðun hæstv. fjármálaráðherra kemur svo í beinu framhaldi af síðustu árás forsætisráðherra á Seðlabankann um að auglýsa stöðuna en skipa ekki aftur þann seðlabankastjóra sem þar situr, þá vekur það eðlilega athygli og áhyggjur og langt út fyrir landsteinana, því það þykir mjög sérstakt. Er eitthvað þarna á bak við? Er kominn upp ágreiningur? Er komið upp vantraust sem allir vita hversu skaðlegt er?

Ekki bætir úr skák vangaveltur um að breyta stjórnskipulaginu án nokkurra innstæðna eða rökstuðnings, bara vangaveltur um þetta og hitt varðandi fyrirkomulagið í Seðlabankanum. Hvað gengur ríkisstjórninni til? Vill hún þægan seðlabankastjóra? Er það það? Látum nú vera blaðrið í hæstv. forsætisráðherra.

Ég verð að segja að það veldur mér miklum vonbrigðum að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra skuli dragast inn í þennan leik. Er engin hrygglengja í hæstv. (Forseti hringir.) fjármála- og efnahagsráðherra, eða þarf hann að láta hvaða vitleysu sem er (Forseti hringir.) eftir Framsóknarflokknum? Maður spyr.