143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

málefni Seðlabankans.

[15:46]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Í þessari umræðu hefur hæstv. fjármálaráðherra skýrt það að hann hafði engin áform um að breyta stjórnskipulagi Seðlabankans áður en hæstv. forsætisráðherra tók skammardembuna á Seðlabankann. Ákvörðun hans nú, um að nota ferðina með öðru frumvarpi um breytingar á öðrum þáttum í starfsemi Seðlabankans til að breyta stjórnskipulaginu, er því beinlínis til þess að þóknast hæstv. forsætisráðherra. Það hlýtur að vekja okkur undrun að hæstv. fjármálaráðherra sé svo veikburða að þurfa að falla fyrir hæstv. forsætisráðherra í öfgasinnuðum viðhorfum hans æ ofan í æ í þessu máli. Hæstv. fjármálaráðherra hefur staðfest það hér að hann hafði engin sjálfstæð áform um að breyta stjórnskipulagi Seðlabankans — engin — á þessu þingi. Hann ætlar núna að gera það. Samhengið er augljóst öllum sem eru með opin augu.

Ég hef áhyggjur af þessari ríkisstjórn og þessari aðferðafræði hennar. Ég ætla að deila með þingheimi og þjóðinni hvers vegna. Vegna þess að ríkisstjórnin er nú að kappkosta við að loka annarri af tveimur færum leiðum í gjaldmiðlamálum sem er upptaka evru. Hin leiðin, íslensk króna að afléttum höftum, mun kalla á víðtækar valdheimildir Seðlabankans, alls konar þjóðhagsvarúðarreglur, alls konar heimildir til að stöðva innflæði og útflæði fjár. Beiting þeirra heimilda mun geta gert marga á Íslandi ríka og marga á Íslandi fátæka. Mér sýnist ríkisstjórnin vera að kappkosta við að ná pólitískri stjórn á Seðlabankanum til að geta látið seðlabankastjórana beita þessu valdi í þágu vildarvina sinna, til þess að stjórnarflokkarnir geti valið þá sem lifa og þá sem deyja í hagkerfinu sem verður hér við lýði ef okkur tekst að létta af gjaldeyrishöftum og við lifum áfram við íslenska krónu. Verð hennar mun ekki ráðast að fullu og öllu leyti á markaði. Verð hennar kallar (Forseti hringir.) á hlutlausan og góðviljaðan seðlabanka sem ekki byggir á annarlegum (Forseti hringir.) hagsmunum í starfsemi sinni og ríkisstjórnin ætlar að koma í veg fyrir að sá seðlabanki verði til.