143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

málefni Seðlabankans.

[15:49]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu, mér finnst hún mjög þörf.

Það er eðlilegt að það veki athygli þegar rætt er um breytingar á lögum um Seðlabankann, sérstaklega í ljósi sögunnar. Það ætti ekki að koma hæstv. fjármálaráðherra á óvart. Trúverðugleiki bankans er í húfi og gríðarlega mikilvægt er að sjálfstæði hans sé tryggt.

Ég get alveg tekið undir það sem kom fram í máli hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur að vel geti verið eðlilegt að breyta lögunum að einhverju leyti, en þá velti ég fyrir mér, ef það væru nú kannski engar stórkostlegar breytingar, hvort ekki hefði verið betra að ráðist hefði verið í þá vinnu áður en þessi ákvörðun var tekin, þ.e. að segja stöðu seðlabankastjóra lausri.

Mér finnst líka hafa komið fram í umræðunni, ég vona að ég sé ekki að hafa rangt eftir einhverjum, að eðlilegt sé og það sé stefna stjórnvalda að auglýsa stöður embættismanna. Þær eru held ég oftast til fimm ára. Þá væri kannski fróðlegt að heyra frá hæstv. fjármálaráðherra hvort það sé stefna ríkisstjórnarinnar núna að auglýsa allar stöður, eða hvort þetta sé eitthvert einstakt tilfelli.

Það er rétt að gjalda varhuga við því að pólitískir fulltrúar verði skipaðir í Seðlabankann. Ég treysti því að það sé ekki sú leið sem hæstv. fjármálaráðherra ætlar að feta. Það hefur ekki reynst okkur vel og ég var svolítið hissa á fullyrðingum hæstv. ráðherra áðan um stöðu Seðlabankans 2009. Ég hvet hann til að lesa rannsóknarskýrslu Alþingis um hrun bankanna. Seðlabankinn var rúinn trausti. Það var bara þannig. Hann var gjaldþrota. Ég skil eiginlega ekki hvað hann var að tala um hreinlega.

Ég treysti því að hann vandi sig í þessu máli. Við erum öll sammála um að gríðarlega mikilvægt er að sjálfstæði Seðlabankans sé tryggt og um hann ríki algjör sátt.