143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

málefni Seðlabankans.

[15:53]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Við ræðum í dag um að lög um Seðlabanka Íslands verði endurskoðuð eins og kemur fram á vef fjármálaráðuneytisins. Þar segir, með leyfi forseta:

„Fjármála- og efnahagsráðherra lagði fram og kynnti á fundi ríkisstjórnar, nú í morgun, minnisblað um endurskoðun á lögum nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands.

Nokkur reynsla hefur fengist á þá skipan sem ákveðin var með breytingum á lögum um Seðlabanka Íslands í febrúar 2009. Að mati fjármála- og efnahagsráðherra er tímabært að taka þær breytingar og fleiri þætti er varða lög um Seðlabanka Íslands til endurskoðunar. Einnig sé mikilvægt að skoða hvort ástæða sé til að gera breytingar á skipulagi fjármálamarkaðar og Fjármálaeftirlitsins í því skyni að efla samstarf og skýra verkaskiptingu milli Fjármálaeftirlitsins og bankans.

Mun fjármála- og efnahagsráðherra setja á fót starfshóp til að leggja mat á æskilegar breytingar. Hópurinn skal hafa það að markmiði að treysta trúverðugleika og sjálfstæði bankans og traust á íslenskum efnahagsmálum.“

Í ljósi þessa og líka í ljósi sögu Sjálfstæðisflokksins — það er á allra vitorði að Davíð Oddsson átti það til að leggja niður stofnanir sem voru honum ekki þóknanlegar. Þjóðhagsstofnun er eitt, hún gaf ekki þau skilaboð sem forsætisráðherra vildi. Svo var það Samkeppnisstofnun, hún var lögð niður og önnur stofnun sett upp, meðal annars til að menn gætu losað sig við ákveðna óæskilega aðila. Við skulum vona að í þessu tilfelli sé ekki verið að fara þá vegferð.

Við munum fylgjast vel með þessu máli og sjá hvað starfshópurinn leggur til. Þarna kemur fram og við skulum halda því til streitu að þetta verði faglega gert og þetta tryggi sjálfstæði Seðlabankans. Það er það sem er mikilvægast.