143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

þingleg meðferð skýrslu um ESB.

[16:03]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Við erum komin þar í dagskránni að við tökum aftur til við að ræða um skýrslu Hagfræðistofnunar sem utanríkisráðherra hefur lagt fram. Eins og hér hefur verið reifað eiga þó nokkrir hv. þingmenn enn eftir að taka til máls um málið. Á meðan það liggur ekki fyrir, bæði hver framvindan verður, hver verður hin þinglega meðferð málsins — og líka gagnvart þingsályktunartillögu hæstv. utanríkisráðherra, sem er vægast sagt umdeild hér í þingsal, það liggur fyrir að hv. forsætisnefnd hyggst hittast hér síðar í dag til að fara yfir þau álitamál sem hafa verið rædd hér — er í raun ekki forsenda fyrir þingmenn á mælendaskrá til að ræða skýrsluna með upplýstum hætti.

Hvað er það sem við erum að ræða hér? Hvað er það sem stjórnarflokkarnir eru með á borðinu? Við verðum, virðulegur forseti, að fá botn í það hver framvindan á að vera. Það verður að vera einhver bragur á því hvernig haldið er utan um málið af hendi forseta.