143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

þingleg meðferð skýrslu um ESB.

[16:06]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég var nú, eins og kannski flestir, þeirrar trúar í upphafi að vinna ætti skýrslu um stöðu aðildarviðræðna við Evrópusambandið og í framhaldi af því gætu menn tekið afstöðu til þess hvað þeir mundu leggja til. Þannig var til dæmis umræðan í mínum þingflokki að menn vildu að sjálfsögðu sjá skýrsluna og ræða hana og taka í framhaldinu afstöðu til þess hvað þeir kynnu að leggja til þannig að skýrslan fengi vandaða umfjöllun.

Það er vel að forseti hefur kveðið upp úr um það að skýrslan skuli ganga til utanríkismálanefndar. Ég tel ástæðu til að inna hv. formann utanríkismálanefndar, sem situr hér í hliðarsal, sérstaklega eftir því hvernig hann hyggst haga vinnu í nefndinni. Hvort hann geti gefið hér fyrirheit um það að skýrslan fái efnislega, vandaða umfjöllun og að nefndin skili nefndaráliti eða nefndarálitum eftir atvikum inn í þingsal þar sem umræðunni yrði haldið áfram áður en lengra yrði haldið.