143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

þingleg meðferð skýrslu um ESB.

[16:07]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Mér finnst mikilvægt að hér sé ekki ferðalag án áfangastaðar, þetta sé ekki ferð án fyrirheits, þ.e. umræðan um skýrsluna. Það hlýtur að þurfa að liggja fyrir hvernig menn ætla að fara með afraksturinn. Til einhvers erum við að ræða þetta, eða hvað? Manni virðist nú reyndar af atburðarásinni sem var hönnuð hér í síðustu viku að þessar umræður um skýrsluna ættu að vera svona meira til málamynda og upp á punt vegna þess að það er augljóst af þingsályktunartillögunni, sem var lögð fram þegar klukkuna vantaði tíu mínútur í sjö síðastliðinn föstudag, að menn hafa lagt töluverða vinnu og sennilega alla síðustu viku í að skrifa hana og fá hana yfirlesna þó að hún sé nú ekki vandaðri en raun ber vitni.

Ég tel því mjög mikilvægt að menn útskýri hvernig á að fara með afrakstur þeirrar umræðu sem hér er í gangi um skýrsluna og hvernig menn ætla að skila af sér einhverri niðurstöðu í þeim efnum.