143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

þingleg meðferð skýrslu um ESB.

[16:10]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Það er ærið tilefni og mörg til að tala hér um fundarstjórn forseta. Það er svo hrópandi óskynsamlegt að klára ekki að ræða skýrsluna og gera það vel og samkvæmt öllum þinglegum hefðum áður en við förum að ræða tillögu sem fjallar um það að slíta aðildarviðræðunum. Ríkisstjórnin hefur sagt, hún sagði það í stjórnarsáttmála sínum, að fara ætti í þessa skýrslugerð um stöðu viðræðnanna við Evrópusambandið og að kynna ætti skýrsluna þjóðinni og þetta ætti að ræða. Við erum með vettvang hér til að fara í saumana á svona skýrslu. Við erum með utanríkismálanefnd. Hæstv. utanríkisráðherra sagði í framsöguræðu sinni með skýrslunni að hann vonaðist til að það yrði opin og hreinskiptin umræða um skýrsluna. Það blasir við að auðvitað ljúkum við umfjöllun um (Forseti hringir.) skýrsluna, svo ræðum við mögulega þingsályktunartillögu um það hvort við viljum slíta viðræðunum eða ekki. Ef við ætlum að gera þetta einhvern veginn öðruvísi bera menn ekki virðingu fyrir faglegum vinnubrögðum, það er augljóst.