143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

þingleg meðferð skýrslu um ESB.

[16:15]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Hér hafa nokkrir þingmenn vikið að því hvernig verði farið með þá skýrslu sem hér er til umræðu á eftir þegar þessari lotu umræðu um fundarstjórn forseta er lokið. Það er skemmst frá því að segja að þeirri hugmynd hefur verið varpað fram í umræðunni, og það er ekkert óeðlilegt við það, að skýrslan gangi til utanríkisnefndar þegar umræðunni lýkur. Þessi skýrsla hefur raunar þegar fengið ítarlegri umræðu en flestar þær skýrslur sem kynntar eru hér í þinginu, en látum það nú vera. Það er eðlilegt að hún fái góða umræðu. (Gripið fram í.) Það verður síðan verkefni utanríkisnefndar að taka ákvörðun um málsmeðferð í því efni. Ég sem formaður nefndarinnar get ekki einn tekið þá ákvörðun. (Gripið fram í.) Nefndin sem slík tekur ákvörðun um það hvernig farið verður með skýrsluna. Nefndin sem slík er sjálfstæð í sínum störfum hvað það varðar. Umfjöllun (Forseti hringir.) verður í utanríkisnefnd, þykist ég vita, ég geri ekki ráð fyrir að það sé andstaða við það, og nefndin tekur málið síðan í sínar hendur.