143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

þingleg meðferð skýrslu um ESB.

[16:20]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég heyri það, bæði á hæstv. forseta og hv. formanni utanríkismálanefndar, að ekki hafi verið gengið frá því áður en umræðan um skýrsluna fór af stað í þinginu hvernig ætti að fara með hana. Vel má vera að það sé venjan varðandi skýrslur, en þetta er ekkert smámál sem við erum að ræða hérna og ég hefði haldið að það hefði verið búið að ganga frá því hvernig ætti að fara með málið þegar við erum að tala um plagg sem á að byggja undir ákvörðun Alþingis um aðildarviðræðurnar.

Ég fagna því, hæstv. forseti, að það skuli eiga að vera fundur í hv. forsætisnefnd og ég vona að hún geti sagt okkur eitthvað varðandi þessi mál, þó að hv. þingmaður, formaður utanríkismálanefndar, vilji meina að það sé sú nefnd sem ráði því hvernig þetta verði en ekki (Forseti hringir.) forsætisnefnd. En ég vona samt sem áður að forsætisnefnd geti fært okkur fréttir að þeim fundi loknum og að sá fundur verði haldinn sem fyrst.