143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

þingleg meðferð skýrslu um ESB.

[16:23]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég þakka formanni utanríkismálanefndar, hv. þm. Birgi Ármannssyni, kærlega fyrir svörin og treysti því að nefndin muni viðhafa góð vinnubrögð í efni og skila nefndaráliti. Eftir stendur spurningin: Verður tillaga hæstv. utanríkisráðherra rædd í þinginu áður en það nefndarálit liggur fyrir?

Ég verð að segja að ég hef mikla samúð með virðulegum forseta að sitja þarna og geta ekki svarað spurningum okkar um hvort fyrirkomulagið verði svona. Ég vil líka vekja athygli á því að hér koma aftur og aftur tillögur frá minni hlutanum um hvernig afgreiða megi þessi mál með þægilegum hætti, nú síðast bara að flýta klukkunni eða seinka henni eða hvað maður gerir þegar maður tekur kvöldverðarhlé klukkan (Forseti hringir.) hálffimm en ekki klukkan sjö. Ég skora á forsætisnefnd að taka kvöldverðarhlé klukkan hálffimm og fara á fund og útkljá þessi mál þannig að hér verði hægt (Forseti hringir.) að halda áfram almennilegri vinnu.