143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

þingleg meðferð skýrslu um ESB.

[16:28]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að það sé skýrt hvernig með þessa skýrslu verði farið. Ég skil hv. þm. Birgi Ármannsson þannig að málið fari til efnislegrar meðferðar í utanríkismálanefnd í samræmi við orð forseta í gær. Ég óska eftir staðfestingu á því frá forseta eða frá formanni utanríkismálanefndar að til standi að vinna í skýrslunni þar, fá gesti og skila áliti til þingsins til upplýsingar fyrir okkur. Ég hef bent hér á að í þessa skýrslu vantar hluti sem skipta verulegu máli um hagsmunamat.

Ef ekki stendur til að hafa efnislega umræðu í utanríkismálanefnd um skýrsluna þykir mér liggja beint við að vísa skýrslunni ekki til utanríkismálanefndar heldur til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og láta þá kalla hæstv. utanríkisráðherra fyrir þar og fá skýringar á þeirri misnotkun á almannafé sem felst í því að biðja um 25 millj. kr. skýrslu og vilja ekki láta gera neitt með hana á vettvangi þingsins.

Annaðhvort fer þessi skýrsla í utanríkismálanefnd (Forseti hringir.) til efnislegrar umræðu, til meðferðar, þar sem gestir (Forseti hringir.) koma í heimsókn, álit verður gefið og umræða verður síðan aftur í þingsal, (Forseti hringir.) eða hún fer í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og þá á að kjöldraga hæstv. utanríkisráðherra fyrir þá misnotkun á almannafé að láta gera skýrslu sem hann vill ekki gera neitt með.