143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

þingleg meðferð skýrslu um ESB.

[16:36]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég vona að það hafi ekki verið of mikið erfiði fyrir hæstv. utanríkisráðherra að koma alla leið upp í ræðustólinn. Það var til bóta, svo langt sem það náði, að hann lýsti því yfir að hann hefði ekkert á móti því að málið gengi til hv. utanríkismálanefndar. Nú hefði maður ætlað að hæstv. ráðherra væri manna áhugasamastur um að skýrslunni yrði gert hátt undir höfði og fjallað um hana rækilega. Svo mikið var um hana talað og eftir henni beðið og vísað til hennar sem tímamótaatburðar í þessu ferli þegar hún kæmi fram. Hæstv. ríkisstjórn hefur talað þannig sl. hálft ár að stóru tíðindin verði þegar þessi mikla skýrsla komi og svo þurfi að ræða hana rækilega og kynna bæði innan þingveggja og utan.

Maður hlýtur eiginlega að ætlast til þess að hæstv. utanríkisráðherra gengisfelli ekki sína eigin skýrslu eða þá skýrslu sem hann hefur beðið um og ætti auðvitað að vera manna ákafastur í að hvetja utanríkismálanefnd til að fjalla rækilega um hana og skila að sjálfsögðu nefndaráliti aftur þannig að framhaldsumræða geti farið hér fram og svo velta menn þá fyrir sér næstu skrefum.