143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[16:59]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svar hv. þingmanns styrkir eiginlega þann skilning minn að við höfum í raun og veru verið komin lengra í þessum viðræðum en ég hefði ætlað af almennri orðræðu. Hérna stendur á bls. 34, með leyfi forseta:

„Af viðræðum við embættismenn í Evrópusambandinu verður ekki annað ráðið en að þeir hafi ekki séð fyrir óleysanleg vandamál og þrátt fyrir að ekki hefði verið hægt að semja um undanþágu frá niðurfellingu tollverndar hefði mátt ræða hvernig mætti koma til móts við innlenda framleiðendur til að bæta þeim upp tap af afnámi verndartolla.“

Við viljum væntanlega hafa innlenda framleiðslu á matvælum, jafnvel þótt það sé bara upp á matvælaöryggið, og þá velti ég fyrir mér hvort hv. þingmaður sjái einhverjar aðrar sérstakar áherslur en mataröryggi í landbúnaðarmálum sem gætu verið orsök þess að hér hafi verið einhverjar innlendar deilur.