143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:00]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins er lögð áhersla á að markaðslögmálin gildi en jafnframt er tekið tillit til svæða þar sem landbúnaðurinn getur ekki starfað eða mundi leggjast af ef markaðslögmálin fengju eingöngu að ráða. Þeim er einmitt mætt með ýmsum hætti, m.a. styrkjum til atvinnusköpunar, nýsköpunar og frumkvöðlastarfs. Það er út af þessu sem byggðastefnan og landbúnaðarstefnan er samofin í Evrópusambandinu þar sem horft er á þetta tvennt í samhengi.

En ég tel ekki miklar líkur á að menn séu hræddir við þetta hér á landi. Ég held að menn ættu að sjá ávinning í þessu frekar en hitt.