143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:01]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Einn af þeim málaflokkum sem fjallað er um í umræddri skýrslu er staða og horfur í efnahagsmálum í Evrópu. Í tengslum við þessa umræðu hefur líka talsvert verið fjallað um gjaldmiðilsmálin. Hv. þm. Oddný G. Harðardóttir kom í ræðu sinni inn á gjaldmiðilsmálin og mikilvægi þess frá hennar sjónarmiði að Ísland gengi í myntbandalag Evrópu. Hún vísaði meðal annars í skýrslu Seðlabanka Íslands um valkosti Íslands í gjaldmiðilsmálum þar sem þeir eru raktir og farið ítarlega yfir þá en í meginatriðum komist að þeirri niðurstöðu að þeir séu fyrst og fremst tveir þó að aðrir séu ekki útilokaðir, þ.e. áframhaldandi íslensk króna eða aðild að myntbandalagi Evrópu og upptaka evru.

Nú heyri ég vel á máli hv. þingmanns að hún og hennar flokkur telur að þessum málum sé af okkar hálfu best fyrir komið í Evrópu með upptöku evru og þá í gegnum aðild að Evrópusambandinu. Það breytir þó ekki því að það er mikilvægt að átta sig á því og ræða hvaða aðrir kostir eru í stöðunni jafnvel fyrir þá sem vilja upptöku evru ef það yrði ekki niðurstaðan, ef Ísland gengur ekki í Evrópusambandið, ég tala nú ekki um ef þjóðin mundi hafna því ef hún fengi tækifæri til þess.

Hvað sér hv. þingmaður fyrir sér og hennar flokkur um framtíð gjaldmiðilsmála á Íslandi ef við horfum fram hjá aðild að myntbandalagi Evrópu og upptöku evru? Hverjir væru næstu kostir hv. þingmanns og hennar flokks varðandi framtíðargjaldmiðilsmál á Íslandi? Er það þá áframhaldandi íslensk króna? Og hvernig sér hún þróun hennar fyrir sér eða hugsanlega einhliða upptöku annarrar myntar?