143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:06]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil hv. þingmann þannig að afstaða hennar sé sú að það séu bara þessir tveir kostir, annaðhvort upptaka evru eða íslensk króna. Gott og vel. Það sem ég er að leita eftir, því að mér finnst mikilvægt að Samfylkingin svari því líka, er hvað ef evrudæmið er út úr myndinni af einhverjum ástæðum, t.d. þeim að þjóðin hafni aðild að Evrópusambandinu ef hún fær að greiða atkvæði um það. Þess vegna leita ég eftir svari.

Ef það er áfram íslensk króna, á hún þá að vera fljótandi eða föst? Á að binda hana við annan gjaldmiðil? Hefur þingmaðurinn eða Samfylkingin mótað sér einhverja afstöðu til nákvæmlega þessa álitamáls? Mér finnst mikilvægt að stilla þessu ekki bara upp sem krónu eða evru heldur þurfi menn líka að hugsa það áfram. Ef um verður að ræða íslenska krónu, með hvaða hætti á hún að vera? Ég minni í því sambandi á að mörg af okkar viðskiptalöndum eru með sjálfstæðan gjaldmiðil, jafnvel þau sem eru innan Evrópusambandsins, og önnur (Forseti hringir.) þar fyrir utan eins og Noregur, þótt þau séu fjölmennari en Ísland.