143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:33]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil líka þakka þingmanninum fyrir að fara svo ágætlega yfir hvernig verið var að fótumtroða vilja þingsins með því að setja þingsályktunartillöguna um slit á aðildarviðræðum á dagskrá áður en umrædd skýrsla hefur fengið þinglega meðferð.

Margir nýir þingmenn eru í salnum og margt fólk sem átti kannski ekki von á að lenda inni á þingi, fólk sem er ekki þessir hefðbundnu rótgrónu stjórnmálamenn, og er komið hér inn með bjarta sýn til að hafa góð áhrif á samfélagið sitt. Hefur þingmaðurinn einhverja von um, miðað við þau vinnubrögð sem við sjáum, að þingmenn stjórnarmeirihluta sýni að þeir standi með almenningi en ekki bara einstrengingslegri forustu í flokknum sínum?