143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:39]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að þetta sé sú besta skýring sem ég hef heyrt, að minnsta kosti hingað til. Ég las skýrsluna líka og sá ekkert í henni sem gæti kallað á neyðarákvörðun um slit á viðræðum samstundis. Það er örugglega rétt hjá hv. þingmanni að líklega óttuðust menn það, þegar þeir sáu skýrsluna, að umræðan um aðild eða ekki aðild gæti farið að þróast meðal þjóðarinnar í áttir sem ríkisstjórninni hugnaðist ekki. Það er mjög líkleg skýring vegna þess að flýtirinn á þessu máli er þannig að maður hlýtur að spyrja sig spurninga hvað það varðar. Ekki voru menn svona snöggir að koma fram með skuldatillögur til dæmis þó að skýrslu þeirrar nefndar hafi verið skilað í nóvember, þær eru ekki enn komnar hingað inn til þingsins. En menn ákveða áður en blekið er þornað á þessari skýrslu að best sé að demba hingað inn viðræðuslitatillögu. Það er eitthvert slíkt neyðarástand í gangi gagnvart ríkisstjórninni, líka vegna þess eins og ég hef sagt áður að tillagan gengur miklu lengra en landsfundasamþykktir beggja flokka gefa þeim tilefni til.