143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:42]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég og hv. þingmaður deilum þeirri skoðun að vilja láta þjóðina hafa síðasta orðið um það hvort hún telji hag sínum betur borgið innan ESB og erum þar sammála. En mér fannst hv. þingmaður draga upp svolitla glansmynd af Evrópusambandinu og hvernig allt mundi batna ef við gengjum í það, að framtíð unga fólksins lægi þar og vextir mundu lækka, að ef við tækjum upp evru yrði gjaldmiðillinn þannig að það yrði stöðugleiki og verðbólga og annað yrði ekki vandamál áfram.

Nú vitum við að atvinnuástand hjá ungu fólki í Evrópu er mjög slæmt, 26 milljónir manna ganga atvinnulausar í Evrópu í dag. Af þeim hafa um 11 milljónir verið atvinnulausar í meira en eitt ár svo vissulega eru menn að glíma við mikil vandamál. Fátæku ríkin, eins og Ítalía, Spánn, Portúgal og Grikkland, eru ekki í sömu stöðu og stóru ríku þjóðirnar í Evrópu hvað varðar efnahagsleg gæði og velferð. Telur hv. þingmaður sjálfgefið að efnahagur okkar Íslendinga vænkist samfara inngöngu og telur hv. þingmaður að við þurfum ekki að glíma við okkar eigin efnahagsmál og ná stöðugleika ef við eigum að hafa möguleika á að fá að taka upp evru? Ef við erum komin á þann stað ætti ástandið á Íslandi þá ekki að vera þannig að allir ættu að hafa það mjög gott, þ.e. ef hér ríkti sá stöðugleiki að skilyrði fyrir evruupptöku væru fyrir hendi?