143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:05]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir ræðuna. Hún var sannarlega „inspírerandi“ og þingmaðurinn fór ágætlega eða mjög vel yfir af hverju hún tekur þá afstöðu sem hún hefur tekið gagnvart Evrópusambandinu. Við erum sammála um að við viljum sjá samning og skoða hvernig hann lítur út og við vitum að það er ekkert ljóst með aðild fyrr en við sjáum hvað í honum stendur.

Nú er það svo að ferlið er í uppnámi og ég vil spyrja þingmanninn hvort hún álíti að hlé á viðræðum sé skárri kostur en að rjúfa þær alveg.

(Forseti (SilG): Forseti vill biðja hv. þingmann að nota fyrst og fremst íslenskt mál.)