143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:09]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir áhrifamikla ræðu. Hún tók fram að hún væri femínisti og hefði fyrir löngu viljað stíga það skref að sækja um aðild og ganga í Evrópusambandið. Ég vil spyrja hv. þingmann hvernig henni hugnist þau kynjahlutföll sem eru í framkvæmdastjórn ESB og í þeim stofnunum sem völdin liggja í Evrópusambandinu og hvort hún telji það til fyrirmyndar.

Svo lýsti hv. þingmaður ágætlega ástandinu á Íslandi, að við værum á mörgum sviðum eftirbátar. Telur hv. þingmaður að það hafi ekki eitthvað með það að segja að við höfum haft hérna hægri stjórn að stærstum hluta síðustu 20–30 ár? Og hvort ástandið væri nú kannski eitthvað annað ef sú góða ríkisstjórn sem var hér á síðasta kjörtímabili, vinstri stjórn, hefði getað hrint í framkvæmd mörgum góðum málum sem menn telja að gagnist okkur ef við göngum inn í ESB?