143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:11]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er innilega sammála hv. þingmanni, ég held að það sé alltaf til bóta að vera með vinstri stjórn og þær séu framfarasinnaðri.

Varðandi kynjahlutföll hjá Evrópusambandinu eru þau alls ekki viðunandi eins og ég fór yfir í ræðu minni áðan. Það er ekki eins og þar sé eitthvert sæluríki femínista en þar fer fram svipuð umræða um aðgerðir og hér á landi. Mikil umræða hefur verið um kynjakvóta af ýmsu tagi og mjög metnaðarfullar áætlanir eru þar til að efla hlut kvenna og áhrif kvenna innan sambandsins.

Varðandi áhrifin af hægri stjórn hér á landi þá ætla ég ekki að gera lítið úr þeim. Varðandi ýmis framfaramál á sviði mannréttinda og umhverfismála var ríkisstjórnin, sú síðasta, mjög framfarasinnuð. En það ber líka að minna á að íhaldsmenn eru í öllum flokkum í öllum löndum, það eru hin framsæknu öfl sem hafa með stærð sambandsins getað sameinast og náð fram umbótum, t.d. í umhverfismálum.