143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:12]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Nú hefur það líka komið fram að ójöfnuður hefur verið að aukast í Evrópu á síðustu fimm árum og mikið er talað um þann lýðræðishalla sem er innan ESB sem mig langar að fá aðeins álit hv. þingmanns á. Hvernig telur hv. þingmaður að Evrópusambandið muni þróast á næstu árum eftir inngöngu ríkja Austur-Evrópu? Hver verður þróunin þar? Einnig hefur komið fram að þjóðir innan Bretlands, Skotar, eru að krefjast sjálfstæðis og ýmis óróleiki er í mörgum löndum varðandi evruna. Sumir vilja jafnvel taka upp nýja mynt. Sér hv. þingmaður fyrir sér hvernig þróunin verður innan Evrópusambandsins, þó maður horfi ekki lengra en til næstu fimm ára? Hvar stöndum við í því samhengi, litla Ísland?