143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:15]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni góða ræðu. Eitt af því sem ég hef dálítið verið að pæla í með hliðsjón af orðum ríkisstjórnarflokkanna og sérstaklega hæstv. ráðherra um hinn svokallaða ómöguleika er sú hugmynd að ríkisstjórn geti ekki varið hagsmuni ef hún er á móti einhverju langtímaplani. Nú er hv. 3. þm. Reykv. s. í Samfylkingunni sem var í stjórn síðast og hv. 8. þm. Norðvest. í Vinstri grænum sem við heyrðum í hér áðan, og Vinstri grænir eru ekkert endilega með Evrópusambandinu, oft þvert á móti. Ég velti því sérstaklega fyrir mér og vil spyrja hv. þingmann að því hvort það hafi komið niður á starfinu á seinasta kjörtímabili að sækja um aðild.