143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:17]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svarið. Ég get einhvern veginn ekki að því gert að þegar ég les þessa skýrslu og því meira sem ég les því sannfærðari verð ég um að í raun og veru hafi gengið betur en manni hefur verið sagt og það sé mun minna á milli Íslands og Evrópu en maður gæti haldið miðað við orðræðuna því orðræðan er þannig að þetta sé bara ómögulegt. Landbúnaðarstefnan og sjávarútvegsstefnan geri það að verkum að það sé ómögulegt að fara inn í ESB. Alltaf finnst mér samt undarlegust þau rök, sem eru svo títtnefnd, um þennan svokallaða ómöguleika, að ríkisstjórn geti ekki unnið að hagsmunum Íslands í umsóknarferlinu þrátt fyrir að þjóðin taki endanlega afstöðu til þess hvort það verði samþykkt. Ég velti fyrir mér hvað hv. þingmanni finnst um þau rök.