143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:23]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að þingmaðurinn hefði þá áður en hann kynnti sér efni skýrslunnar átt að standa gegn því að lögð væri fram svo afdráttarlaus tillaga.

Varðandi landsframleiðslu í Evrópusambandinu þá er ég ekki með blaðsíðutal sem þingmaðurinn vísar í en ég geri ráð fyrir að hann sé að vísa í meðaltalstölu enda hefur landsframleiðsla á mann í ýmsum ríkjum verið meiri en hér og í ýmsum ríkjum minni.

Nú er það svo að Ísland er ríkt land og við nutum mikillar hagsældar, ekki síst eftir inngöngu í Evrópska efnahagssvæðið. Það er ekki af því að við höfum ekki tækifæri á að brauðfæða þjóðina sem við þurfum þangað inn að mínu mati heldur er það til að bjóða upp á fjölbreyttari kosti í uppbyggingu atvinnulífs og aukin tækifæri fyrir fólk.

Og efnahagsleg nauðsyn hefur vaxið. Krónan hefur reynst okkur mjög erfið. Við eigum langa og erfiða verðbólgusögu að baki. Við erum lítið, opið hagkerfi sem eigum í mestum utanríkisviðskiptum við evrulöndin. Með því að taka upp evru sem gjaldmiðil, sem er engin töfralausn, þá erum við að draga úr hagsveiflum sem hafa æ ofan í æ valdið lífskjaraskerðingu fyrir Íslendinga.