143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

um fundarstjórn.

[20:17]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Hvað varðar það sem hv. 4. þm. Suðvest. Árni Páll Árnason nefndi áðan og vék að þeim athugasemdum sem hv. þingmaður færði fram í morgun þá liggur fyrir úrskurður forseta hvað það mál áhrærir og er það fullnaðarúrskurður eðli málsins samkvæmt sem kveðinn var upp á forsetastóli í morgun.

Að öðru leyti, sem víkur þá fremur að því bréfi sem hv. þm. Katrín Júlíusdóttir sendi forsætisnefnd, vil ég segja eftirfarandi: Af ákvæðum stjórnarskrár og fyrirmælum þingskapa er ljóst að forseta Alþingis hefur verið falin æðsta stjórn í málefnum Alþingis. Til þess telst m.a. að úrskurða um hvort ályktunartexti tillögu til þingsályktunar sé í samræmi við ákvæði stjórnarskrár, þingskapa, 45. gr., eða annarra laga. Það er hins vegar flytjenda slíkra tillagna að færa rök fyrir þeim en ekki er gert ráð fyrir því að forseti hafi afskipti af slíku. Það eru engin fordæmi og engin venja fyrir því að forsætisnefnd hafi efnisleg afskipti af greinargerð með þingsályktunartillögu eins og farið er fram á í bréfi hv. þingmanns til forsætisnefndar í dag. Árétta verður að þingmál eru sett á dagskrá þingsins til umræðu og er það réttur þingmanna að gera allar þær athugasemdir sem þeir kjósa í umræðunni um málið í þingsal eða í umfjöllun þingnefndar um það og eftir atvikum í nefndarálitum. Engu að síður ákvað forseti að koma þeim ábendingum sem sannanlega fram komu, annars vegar í bréfinu og hins vegar í umræðum á forsætisnefndarfundi, á framfæri við hæstv. utanríkisráðherra nú fyrr í kvöld og lítur svo á að hæstv. utanríkisráðherra sé með þessi mál til frekari athugunar.