143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

um fundarstjórn.

[20:19]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að hafa komið athugasemdum áleiðis til hæstv. utanríkisráðherra vegna þess að það er svo sannarlega ekki vanþörf á. En það eru samt engin svör komin hér um hvort menn ætli í alvörunni að standa við það að vera með slúður og róg í greinargerðum með þingsályktunartillögum ríkisstjórnar. Það er enginn botn kominn í þetta mál og á meðan svo er, þó að ég þakki viðleitni hæstv. forseta, þá stendur það að við sem vorum á þingi árið 2009 erum borin þeim sökum að hafa ekki staðið með sannfæringu okkar í sölum Alþingis þegar við greiddum atkvæði um aðild að Evrópusambandinu. Þetta er hæstv. utanríkisráðherra og þessari ríkisstjórn til háborinnar skammar og hæstv. utanríkisráðherra ætti að sjá sóma sinn í því að koma hingað í þennan stól og biðja þingheim afsökunar, bæði þennan sem fær þennan hroðbjóð hingað inn á sitt borð (Forseti hringir.) og líka fráfarandi þing sem borið er þessum þungu sökum. (Forseti hringir.) Að bjóða okkur upp á rógburð í greinargerð er algerlega (Forseti hringir.) nýtt og óboðlegt.