143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

um fundarstjórn.

[20:22]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það sem þetta mál snýst um eru auðvitað þær einkennilegu dylgjur sem finna má í greinargerð um þá þingsályktunartillögu sem hér er á dagskrá þar sem leidd eru að því rök að ekki hafi í raun verið til staðar meirihlutavilji fyrir málinu á sínum tíma, þ.e. aðildarumsókn til Evrópusambandsins, heldur hafi þetta verið hluti af nokkurs konar pólitísku samkomulagi þáverandi stjórnarflokka og algerlega litið fram hjá því að málið hlaut stuðning úr öðrum flokkum en þáverandi stjórnarflokkum.

Ég virði það við hæstv. forseta að hafa komið þeim skilaboðum á framfæri að það er ekki við hæfi að setja slíkar dylgjur fram í greinargerð með þingmáli. En ég mundi þá vilja inna hæstv. utanríkisráðherra sem hér situr og hlýðir á umræðuna, eftir því hvernig hann hyggist bregðast við þeim athugasemdum sem hæstv. forseti hefur borið honum, hvort hann hyggist endurmeta greinargerðina með þingsályktunartillögunni, sem ég fæ nú ekki trúað að hafi verið vel lesin af öllum hv. þingmönnum stjórnarflokkanna því að það er auðvitað afar óvenjulegt, svo ekki sé meira sagt, að kasta fram órökstuddum fullyrðingum með þessum hætti í greinargerð með þingskjali, á stjórnartillögu. Ég bíð eftir viðbrögðum hæstv. ráðherra.