143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

um fundarstjórn.

[20:30]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka forseta fyrir að hafa komið skilaboðum áfram til hæstv. utanríkisráðherra. Forseti segir að engin fordæmi séu fyrir því að forseti skipti sér af greinargerðum og þeir sem beri þær fram beri ábyrgð á þeim. En ég vil spyrja hæstv. forseta hvort fordæmi séu fyrir því að hv. þingmenn séu bornir svona ásökunum og í rauninni farið með rógburð í greinargerðum með tillögum eða frumvörpum, hvort þetta séu ekki fordæmalausar aðstæður.

Núna hefur þingflokksforusta stjórnarandstöðunnar beðið um að þessum fundi sé frestað eða að gerðar séu miklar breytingar á þessu plaggi. Hvað með forustu stjórnarþingflokkanna? Gera þeir ekki slíka kröfu? (Forseti hringir.) Verja þeir ekki þingmenn sína?