143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

um fundarstjórn.

[20:31]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég er svolítið hugsi yfir úrskurði hæstv. forseta þótt ég fagni því að hann hafi tekið málið upp og rætt það og komið tilmælum til hæstv. utanríkisráðherra. Ég er hugsi vegna þess að það er eftirlit með því hér í ræðustól að við notum kurteislegt orðalag og vanvirðum ekki þingið með ákveðnum orðum. Það er líka þannig að hver einasta tillaga sem fer inn í þingið er lesin yfir hvað varðar íslensku. Ég er hugsi yfir því af hverju menn fá ekki að minnsta kosti þann yfirlestur að vera bent á þegar þeir fara með beinan rógburð eða rangindi í slíkum tillögum. Ég held alla vega að það væri til mikilla bóta að við lentum ekki í málum eins og þessu, að hingað komi þingsályktunartillaga sem er lögð fram í miklum flýti í gegnum þingflokkana.

Ég er eiginlega mjög hissa á hv. þingmönnum stjórnarflokkanna, að þeir skuli ekki hreinskilnislega viðurkenna að þeim hafi yfirsést þetta og óska eftir að því sé breytt, vegna þess að þetta snýr bæði að þingmönnum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins sem hér eru bornir alvarlegum ásökunum (Forseti hringir.) um að þeir greiði ekki atkvæði í samræmi við sannfæringu sínu og brjóti þar með stjórnarskrá.