143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[21:04]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar að hv. þm. Willum Þór Þórsson sé einn af þeim fjölmörgu öndvegisþingmönnum sem komu inn á þing í síðustu kosningum af hálfu Framsóknarflokksins. Mér finnst hins vegar stundum eins og hann sé, svo að notuð sé líking úr fótboltanum, alla vega í þessu máli lentur inn í leikskipulagi liðs sem spilar mun grófari bolta en hann er vanur að spila sjálfur eða mundi vilja gera.

Hv. þingmaður talaði um sáttina í ræðu sinni. Ég þykist viss um að hann hafi hlustað með velþóknun á ræðu hæstv. forsætisráðherra á áramótunum þegar hann talaði um mikilvægi samstöðunnar. Hv. þingmaður getur ekki hafa farið varhluta af því hversu ósátt stjórnarandstaðan er við þá tillögu sem nú liggur fyrir um að draga málið baka. Hvernig samræmist að hans mati, hv. þingmanns, sú aðgerð sem nú hefur verið boðað til með þingsályktunartillögu utanríkisráðherra þessari margumtöluðu sátt? Er þetta samstaðan sem Framsóknarflokkurinn var að boða?