143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[21:07]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað vegna þess að það er ekkert samhengi á milli þeirrar ræðu sem var flutt á áramótunum og því sem verið er að gera hér. Það nær enginn samhenginu þar á milli.

Nú liggja fyrir skoðanir Samtaka atvinnulífsins, Alþýðusambands Íslands, Samtaka iðnaðarins og þrjú stórfyrirtæki eru búin að gefa frá sér mjög alvarlegar athugasemdir við þá atburðarás sem hér er farin af stað, Marel, Össur, CCP. Að vísu hafa félög sjálfstæðismanna í Árnessýslu og Hjörleifur Guttormsson lýst sig fylgjandi ríkisstjórninni í þessum efnum. En hvaða ályktanir dregur hv. þingmaður af þeim athugasemdum sem komið hafa frá öllum þessum aðilum vinnumarkaðarins og fjölmörgum aðilum?