143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[21:09]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni ræðuna og halda svolítið áfram frá síðasta andsvari. Ég hef oft haft á tilfinningunni að hv. þingmaður beri skynbragð á mikilvægi þess að loka ekki dyrum að óþörfu og í gjaldmiðilsgreiningarskýrslu Seðlabankans var komist að þeirri niðurstöðu að tveir kostir væru mögulegir. Annar væri íslensk króna, sem þyrfti einhvers konar hafta við, varúðarreglna eða annarra hindrana, og hins vegar evra.

Við erum ekki búin að létta af gjaldeyrishöftum. Öll fyrirtækin í landinu sem eru í útflutningi og eru á alþjóðlegum markaði biðja þess einlæglega að hinum dyrunum sé ekki lokað á meðan ekki er búið að aflétta höftum og sýna að leiðin með íslenska krónu sé fær, af því að við búum einfaldlega við þær aðstæður að við höfum haft fullt markaðsfrelsi hennar í einungis sjö ár, frá árinu 2001 fram til 2008 og það endaði með hrapallegum afleiðingum. Það er auðvitað alveg óljóst (Forseti hringir.) hvernig okkur gengur til langframa að reka íslenska krónu á opnum markaði. Hefur hv. þingmaður ekki skilning á því sjónarmiði að gott sé að halda öllum dyrum opnum?