143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[21:12]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vandi ríkisstjórnarflokkanna er hins vegar sá að fyrirtækin í atvinnulífinu grátbiðja um að þessum dyrum verði ekki lokað. Og ég hlýt að spyrja: Hvaða snilld er það sem ríkisstjórnarflokkarnir sjá sem þeir aðilar sjá hvergi og sjá ekki? Hvaða plan er það sem ríkisstjórnarflokkarnir eru sannfærðir um sem leiðtogar fyrirtækjanna í landinu sjá ekki og óttast öðru fremur?

Mig langar líka að spyrja hv þingmenn, út af flautaþyrilshættinum í hæstv. utanríkisráðherra, að vaða fram með tillögu áður en búið er að ræða þessa skýrslu til fulls: Er hv. þingmaður ekki sammála mér um að það sé ýmislegt að ræða í henni? Þó að ýmislegt gott sé í henni þá er ekki orð í henni um ávinninginn fyrir sjávarútveginn af tollfrjálsum aðgangi að Evrópumarkaði fyrir allar uppsjávarafurðir. Við erum í dag með 15–20% toll af öllum uppsjávarafurðum. Þær yrðu allar tollfrjálsar ef við gengjum í Evrópusambandið og það er ekki orð í þessari skýrslu um þýðingu þess fyrir hagsmunamat íslenskrar þjóðar. Er þetta eina dæmi ekki góður vitnisburður um að það væri ástæða til að efna til ákveðinnar umræðu um þessa skýrslu til að glöggva okkur betur á heildarmyndinni?