143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[21:39]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég er sammála þingmanninum um það að við þurfum styrkari grunn undir það yfir höfuð að leiða tillögur til lykta, þ.e. að skýrslan eigi að vera til umræðu fyrst og síðan eigum við þá að leggja fram einhvers konar tillögur.

Ég hef grun um að meiri stuðningur sé við þessa breiðu og lýðræðislegu nálgun hér í þingsal en við áttum okkur á við fyrstu skoðun. Mig langar að spyrja hv. þingmann vegna þeirra ummæla sem eru í greinargerð með þingsályktunartillögu hæstv. utanríkisráðherra og hún hefur hér svarað ágætlega að hún telji orð þar ekki ásættanleg fyrir þá sem greiddu atkvæði 2009: Hvað væri að mati þingmannsins fullnægjandi viðbragð hjá hæstv. utanríkisráðherra við þeirri stöðu sem upp er komin?