143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[21:42]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að þetta er í fyrsta sinn sem ég heyri þetta sjónarmið, en ég ber fulla virðingu fyrir því.

Þá verð ég að spyrja aftur um tímarammann vegna þess að ég trúi því sjálfur að þegar komið er að þjóðaratkvæðagreiðslum sé það ekki bara það lýðræðisprinsipp að þjóðin ráði hlutunum sem hafi vægi heldur tel ég líka — og það er byggt á reynslunni af því að sjá hvernig umræðan þróaðist eftir að forseti lýðveldisins hafnaði fjölmiðlalögunum svokölluðu á sínum tíma — að þá fyrst verði til mjög rík efnisleg og hreinskilin umræða. Áður en til þjóðaratkvæðagreiðslu kom var þetta meira eða minna pólitískt þras eins og allir þekkja en um leið og fólk öðlaðist trú á því að það gæti sjálft haft eitthvað um málin að segja fór það skyndilega að taka málið alvarlega og ræða það mun ítarlegar og á mun vandaðri hátt.

Mig langar að breyta spurningunni og spyrja hv. þingmann hvaða tíma hún teldi eðlilegan til að ræða út um þetta mál áður en til þjóðaratkvæðagreiðslu kæmi, hvort sem um væri að ræða sveitarstjórnarkosningar eða aðrar kosningar.