143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[21:48]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég held að hæstv. utanríkisráðherra hefði betur lagt orðin fyrr við þegar ég stakk upp á því strax snemma í gær að hann skoðaði nú þessa greinargerð sína og afturkallaði þingskjalið og prentaði hana upp. Ef hann hefði með vitrum mönnum sest yfir þetta þá hefði hann kannski komist að þeirri niðurstöðu sjálfur og ekki þurft allt þetta til til þess að sjá hversu fráleit óhæfa það er að ætlast til þess að þingmenn ræði þingmál með rógburði af þessu tagi um Alþingi, ásökunum sem hitta sjálft Alþingi beint í hjartastað, því að það er vegið að sjálfum samviskuákvæðum stjórnarskrárinnar og eiði þingmanna að stjórnarskránni. (Gripið fram í.)

Ég vil fá að sjá hvernig þá þessi nýja greinargerð lítur út áður en ég tjái mig frekar um málið af minni hálfu. Úr því sem komið er finnst mér nú að hæstv. utanríkisráðherra slyppi vel ef hann vandaði sig við að hreinsa út úr greinargerðinni allt sem felur í sér einhvern áburð (Forseti hringir.) eða gildishlaðið orðalag um aðra þingmenn og slyppi þá kannski með svona létta afsökunarbeiðni. (Utanrrh.: Ég hef þó ekki logið að þinginu eins og þú.)(Forseti hringir.)

Ég heyri það að hæstv. utanríkisráðherra er á sömu buxunum. Frú forseti, (Gripið fram í: Þetta er vítavert, vítavert.)(Gripið fram í: Forseti?) kallar þetta ekki á neitt, frú forseti? (KaJúl: Þetta er vítavert. Það varðar þingsköp.) (Gripið fram í.)

Svona er að eiga orðaskipti við þennan mann. [Háreysti í þingsal.] (Forseti hringir.) Auðvitað er hæstv. utanríkisráðherra þegar orðinn þvílíkur ómerkingur í þingsögunni að það sér kannski ekki á svörtu þó að hann beri bara beint lygar upp á mann, standandi hér í ræðustól.

(Forseti (ValG): Við biðjum hv. þingmenn og hæstv. ráðherra að gæta orða sinna í hvívetna.)