143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[21:53]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Þetta er nú dapurlegra en tárum taki. Hæstv. ráðherra situr núna á ráðherrabekknum, loksins, og sperringurinn er þvílíkur að hann kemur hér upp í ræðustól eftir að búið er að draga fram að hann hefur orðið þingi og sjálfum sér til lítillækkunar. Og hvað hefur hann þá fram að færa? Hálfkæring. Hann hefur fram að færa hálfkæring og situr svo á ráðherrabekknum og heldur áfram óhróðrinum. Auðmýkt er ekki til, hún er ekki til í orðabókinni. Lágkúra er þar efst á blaði, lágkúra og lítilmennska, virðulegur forseti.

Ég geri kröfu um að hæstv. ráðherra biðji hér þingið afsökunar og ég geri kröfu um að virðulegur forseti víti ráðherrann fyrir frammíköll hér áðan og ég óska eftir því að þessum þingfundi verði slitið vegna þess að hann er engum til framdráttar. (Forseti hringir.)

(Forseti (ValG): Forseti gerir hlé á þingfundi í 15 mínútur.)